19.1.2008 | 00:46
Öðruvísi jól
Þau voru heldur betur öðruvísi jólin þetta árið en gengur og gerist hjá mér. Öll stórfjölskyldan fimmtán manns var á leiðinni vestur um haf til eyjar í Karíbahafi sem nefnist Dómeníska Lýðveldið en deilir víst bróðurlega landi með Haítí. Ferðin byrjaði ekki gæfulega þar sem litli prinsinn var farinn að hósta degi fyrir brottför og hita þegar við lögðum af stað til fyrsta áfanga staðar sem var Halifax. Þar var hann að vísu sprækur og mamman og pabbinn skiptust á að elta rakettuna út um allt. Seinni lotan til suður til Dómenó var ekki eins fjörug þar sem hann mókti allan tímann. Þegar komið var upp á hótel var strax farið að vinna í því að fá lækni. Í Dómeníska Lýðveldinu er allt önnur tímaskynjun en í iðnríkjunum þar sannast best fullyrðing Einsteins að tíminn sé afstæður. Eftir klukkutíma bið hringdi fararstjórinn og bað okkur um að koma upp að lobbí og hitta lækninn sem var með litla aðstöðu þar hjá apóteki. Hótelið var byggt í smáum einingum þriggja hæða fjölbýlishús sem var dreift um hótelsvæðið og þyrfti því smá labb í að komst í hið eiginlega lobbí. Þegar þangað var komið var enginn læknir sjáalegur og fararstjórinn bað afgreiðslukonuna í apótekinu að hringja á lækninn. Tuttugu mínútur sagði konan í að hann kæmi. Við fórum aftur upp á herbergi og biðum. Eftir tvo tíma hafði ekkert spurst til hans. Nú gæti fólk bent á að lífið sé svo afslappað og áhyggjulaust þarna að allir taki sinn tíma að koma sér á áfangastað og það þetta sé óþarfa ferðamannastress. En þegar maður er tveggja ára einhverfur drengur sem aldrei kvartar undan sársauka og eina leiðin til að láta vita þegar maður er sárkvalinn er að grenja er tíminn mikilvægur. Því þegar hitinn fer vel yfir fjörtíu stig og ekki hægt að gráta er lítið annað sem gerist en maður líður út af.Þetta gerðist einmitt í þeim töluðu orðum sem ég var að tala við farastjórann. Farastjórarnir Gunnþórunn og Freyja og komu eins fljótt og þær gátu og hringdu stanslaust á lækninn þar til hann kom loksins og keyrði okkur öll upp á spítala þar sem hann var settur í myndatöku og gefin næring, hitalækkandi og sýkladrepandi. Jabbs bráðalungnabólga var það heillin, næstu þrír sólahringar dvöldum við á spítala sem gæti hafa litið út eins og Landspítalinn fyrir fimmtíu árum með frumskógarlífi. Fararstjórarnir litu inn daginn eftir og eiga þakkir skilið fyrir frábæra þjónustu.Okkur leið samt ágætlega við höfðum okkar fólk sem skipti við okkur til að komast í mat, nokkrir tungumálaörðuleikar gerðu vart við sig við hjúkkurnar en það er ótrúlegt hvað fingramál og sameiginlegur áhugi á að gera sig skiljanlegan getur fleytt manni áfram auk þess sem vinkona mömmu og dóttir hennar töluðu spænsku. Hjalti litli fékk að horfa á Dodda og Bubba eins mikið og hann vildi en sveið samt hrikalega undan reglulegum sprautunum og var farinn að væla hvert sinn sem hjúkkurnar litu inn. Þegar grænt ljós kom frá alþjóðlega SOS lækninum fengum við að fara "heim". Á aðfangadag klukkan sex ,sem að öllu jöfnu hefði maður óskað sínum nánustu gleðilegra jóla farið svo að borða rjúpur hlustandi á messuna í útvarpinu, vorum við stödd í lokaathugun á gamalli læknastofu á hótelinu. Drengurinn orðinn hreinn og var mjög feginn að geta loksins hlaupið á bleyjunni í sandinum allan daginn og lagt sig svo með afa í griðalegri himnasæng sem hótelið hafði látið útbúa á einkaströndinni. Síðust dagana fyrir utan að flatmaga fóru í bæjarrúnt með tilheyrandi vindla og larimar(raf tegund, einkennissteinn eyjarinnar) kaupum, og ferð í Ocean World sem er sjávardýragarður. Þegar við komum heim í kuldann klukkan sex um morgun á gamlársdag vildi maður helst snúa aftur í dyrunum og hoppa upp í næstu vél til baka. Þessi lífsreynsla á spítalanum var vissulega erfið en ég fann virkilega til með þeim foreldrum sem þurfa að horfa upp á börnin sín kveljast á hverjum degi. Stundum heldur maður með sínum fullorðinshroka að það sé svo ótal margt sem geti og þurfi að kenna börnunum að það gleymist hvað er mikilvægasti lærdómurinn. Það eru börnin sem eru hinir eiginlegu kennarar því þau kenna manni allt sem skiptir svo miklu máli, æðruleysi, þolinmæði og þakklæti.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Flottur strákur hann Hjalti.
Gaman að lesa um ferðina líka þó ég hafi verið búinn að hitta þig og heyra allt saman.
Oddur (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 23:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.